Verið er að leggja síðustu hönd á að setja reglur um meðferð innherjaupplýsinga hjá starfsmönnum opinberra stofnana, að sögn Gunnars Andersen, forstjóra Fjármálaeftirlitsins.

„Við erum að klára þetta verkefni, en það hefur tafist vegna skipulagsbreytinga hjá embættinu.“ Gunnar segist ekki geta sagt nákvæmlega til um hvernig þessar reglur muni hljóma, en líklega verði sett upp einhvers konar tilkynningaskylda á viðskipti hjá starfsmönnum stofnana, sem geta búið yfir innherjaupplýsingum.

„Í mörgum ráðuneytum og stofnunum búa starfsmenn yfir mjög mikilvægum upplýsingum og því mikilvægt að bæta úr regluverkinu í kringum þetta,“ segir Gunnar og bætir því við að frétta af þessu sé að vænta eftir um tvo mánuði.

Eins og regluverkið er núna hafa engar reglur verið beint settar um innherjaviðskipti hjá stjórnvöldum, heldur ber þeim að fylgja reglum um innherjaviðskipti hjá útgefendum verðbréfa „eftir því sem við getur átt,“ eins og segir í fyrstu grein reglugerðarinnar.

Nánar er fjallað um málið í síðasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.