Fyrrum starfsmenn Tesla Inc. í Svíþjóð, hafa áhuga á að reisa rafhlöðuverksmiðju í Skandinavíu. Verksmiðjan yrði stíluð eftir Gigafactory verksmiðju Tesla í Nevada.

Peter Carlsson, forsprakki verkefnisins, ræddi við Financial Times í vikunni og taldi Skandinavíu henta vel til slíkra framkvæmda. Að hans sögn yrði áætlaður kostnaður við framkvæmdirnar um 4 milljarðar dala.

Carlsson, stofnaði fyrirtækið Northvolt, eftir að hafa sagt starfi sínu lausu hjá bílaframleiðandanum. Markmið Northvolt er að hefja framleiðslu á rafhlöðum árið 2020.

Northvolt teymið samanstendur eins og er af öðrum reynsluboltum, en einn stjórnenda félagsins Paolo Cerruti, sinnti einnig áður stjórnunarstöðum hjá Tesla.

Carlsson og Cerutti segjast þó ekki vilja keppa við gamla vinnustaðinn. Markmið þeirra er öllu heldur að keppa við aðra rafhlöðuframleiðendur, til að mynda í Asíu, sem vilja fullnægja eftirspurn bílafyrirtækja sem eru að auka framleiðslu á vistvænum ökutækjum.