*

mánudagur, 27. september 2021
Innlent 19. janúar 2017 10:31

Vill reka nokkur hótel á Íslandi

Hótelkeðjan First Hotels mun á þessu ári opna sitt fyrsta hótel hérlendis en það verður 105 herbergja hótel í Hlíðasmára.

Trausti Hafliðason
Húsnæði First Hotels við Hlíðasmára á eftir að taka miklum breytingum en Krossinn var áður til húsa í byggingunni.
Haraldur Guðjónsson

Hótelið, sem First Hotels mun opna í Hlíðasmára 5-7 í Kópavogi, verður með 105 herbergjum. Húsnæðið er í eigu FAST-3, fagfjárfestasjóðs í stýringu Íslandssjóða og mun First Hotels leigja það af sjóðnum.

First Hotels er nokkuð stór hótelkeðja. Fyrirtækið á um 60 hótel í Noregi, Svíþjóð og Danmörku. Auk þess hefur fyrirtækið gert sérleyfissamninga við um 30 önnur hótel á Spáni, sem eru rekin undir nafni First Hotels. Þess má geta að allt þar til í lok síðasta árs var Alda hótel á Laugavegi með sérleyfissamning við First Hotels.

Nýstárlegt hótel

Norðmaðurinn Stephen Meinich-Bache er forstjóri First Hotels. Hann segir að hótelið í Hlíðasmára verði að mörgu leyti nýstárlegt. Nýjungarnar miði meðal annars að því að geta boðið gestum upp á hagstætt verð fyrir gistingu. Hann segir að engin gestamóttaka verði á hótelinu heldur muni gestirnir sjálfir sjá um að innrita sig og skrá sig út.

Stephen segir að þó engin gestamóttaka verði á hótelinu verði samt alltaf starfsmaður á staðnum, sem muni aðstoða gesti og svara spurningum. Enginn veitingastaður verður á hótelinu en samt verður boðið upp á morgunmat.

„Við ætlum að bjóða fólki að kaupa morgunverð í sjálfsölum," segir Stephen. „Í sjálfsölunum verða drykkir og fersk matvæli. Á hótelinu verður salur með borðum og stólum, þar sem gestirnir geta borðað."

400 til 500 herbergi

Stephen segir að hótelið í Hlíðasmára sé bara fyrsta skref First Hotels á Íslandi.

Við höfum hug á að vera með á bilinu 400 til 500 hótelherbergi á Íslandi. Við erum aðallega að skoða höfuðborgarsvæðið en ég gæti líka alveg hugsað mér að reka hótel í Keflavík og jafnvel á Akureyri þegar fram líða stundir. Mér finnst mörg vannýtt tækifæri í Keflavík því í mínum huga ætti bærinn að vera hliðið að Íslandi."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.