Til greina kemur að skjóta dómi Hæstaréttar um réttarfarssekt á hendur Gesti Jónssyni og Ragnari Halldóri Hall til Mannréttindadómstóls Evrópu. Þetta staðfesti Gestur í samtali við Viðskiptablaðið. Lögfræðinga greinir á um lögmæti dómsins en Brynjar Níelsson hyggst beita sér fyrir því að afnema lagaheimild til beitingar réttarfarssekta í haust. Gesti og Ragnari var gert að greiða réttarfarssekt að upphæð ein milljón króna hvor fyrir að mæta ekki til þinghalds þegar Al Thani-málið var tekið fyrir í héraði. Hæstiréttur staðfesti dóminn fyrir skömmu.

Málið er umdeilt, ekki síst vegna þess að þeir Gestur og Ragnar fengu einungis að halda uppi vörnum í Hæstarétti, en voru ekki viðstaddir í héraðsdómi þegar þeir voru sektaðir. Á dögunum stóð Lögfræðingafélagið fyrir málfundi um dóminn þar sem þeir Sigurður Tómas Magnússon, prófessor í lögfræði og ráðgjafi sérstaks saksóknara, og Brynjar Níelsson alþingismaður lýstu skoðunum sínum á honum.

Aðspurður segir Sigurður í samtali við Viðskiptablaðið margt benda til þess að Hæstiréttur hafi gert rétt í að staðfesta réttarfarssektina. Ef marka megi fordæmi frá Evrópu og víðar þá sé fullnægjandi að menn fái að halda uppi fullum vörnum á einu dómstigi til að málsmeðferð teljist réttlát.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .