Ríkiskaup opnuðu tilboð í St. Jósefsspítala í fyrradag og þá kom í ljós að hæsta tilboðið í spítalann, sem stendur við Suðurgötu 41 í Hafnarfirði, átti Stofnás ehf. og hljóðaði það upp á 85 milljónir króna. Einnig voru opnuð tilboð í Suðurgötu 44, sem er þriggja hæða hús gegnt spítalanum. Skrauta ehf. bauð hæst í það hús, eða 37,6 milljónir

Björn Sigurðsson, eigandi Skrautu, segist ekki gera sér grein fyrir því hvað seljandinn, ríkið og Hafnarfjarðarbær, sé nákvæmlega að spá.

„Ég get í raun ekki ímyndað mér hvaða verð þeir sætta sig við," segir Björn. „Ég bauð þá tölu sem mér fannst geta gengið. Það hefur verið lítið viðhald á húsinu í mörg ár og nokkuð ljóst að eigandinn hefur metið það þannig að varanlegt viðhald borgaði sig ekki. Ég myndi því nánast örugglega rífa húsið og byggja íbúðarhús á lóðinni enda er lóðin á íbúðasvæði samkvæmt deiliskipulagi.“