Skiptastjóri þrotabús Karls Wernerssonar hefur ákveðið að höfða mál til riftunar nokkurra af viðskiptum fjárfestisins áður en hann fór í þrot, þar á meðal vegna viðskipta með Lyf og heilsu, að því er Fréttablaðið greinir frá.

Fyrir bankahrunið árið 2008 var Karl, ásamt Steingrími bróður sínum umsvifamikill í fjárfestingum í gegnum félagið Milestone, sem átti meðal annars lyfjaverslanirnar áðurnefndu.

En áður en af hruninu varð var eignarhaldið fært til Karls og er hún nú í eigu sonar hans, Jóns Hilmars Karlssonar, í gegnum félagið Toska ehf. sem er eigandi lyfjaverslananna í gegnum félögin Faxa ehf. og Faxar ehf.

Snýst málsóknin um riftun á þessum viðskiptum, en einnig á riftun kaupa Faxa ehf. á félögunum Feta ehf. og Vátt ehf. sem einnig voru í eigu Karls, en þau voru keypt á eina krónu hvort.

Feta er hrossaræktarbúgarður, að því er Morgunblaðið greinir frá, en þar er einnig talað um félagið Galtalækjarskógur, sem var keyptur árið 2007 fyrir 225 milljónir, en eignirnar seldar fyrir áðurnefndar 1 krónu. Loks var 1.100 fermetra íbúðarhús Karls á Ítalíu fært inn í Faxa ehf. sem einnig hefur verið höfðað riftunarmál út af.