Reykjavíkurborg gæti sparað umtalsverða fjármuni ef lið í úrvalsdeild í knattspyrnu myndu sameinast. Þetta kom fram í ræðu Kristínar Soffíu Jónsdóttur, borgarfulltrúa Samfylkingar, á fundi borgarstjórnar undir liðnum sex mánaða uppgjör Reykjavíkurborgar. Sex lið úr Reykjavík spila í úrvalsdeildum karla og kvenna í knattspyrnu, samkvæmt Kristínu.

Nefndi Kristín til samanburðar að í Kaupmannahöfn væri einungis starfrækt eitt lið í efstu deild, FC København, þó að fleiri lið héldu úti yngriflokkastarfi. Sameining þessara liða í efstu deild væri gerð í sparnaðarskyni.

Hún sagði að dýrt væri að reisa, reka og viðhalda stúkum og öðrum mannvirkjum fyrir sex knattspyrnulið og betur færi á því að sá kostnaður yrði lækkaður með sameiningum.