Fjármálaleiðtogar Þýskalands, Frakklands, Ítalíu og Spánar hittast í París í kvöld til að ræða efnahagsástandið í Evrópusambandinu. Fundurinn er hluti undirbúnings fyrir leiðtogafund ESB sem hefst næstkomandi fimmtudag. Þetta kemur fram á vef fréttaveitunnar Reuters í dag.

Ekki eru allir leiðtogar svæðisins sammála um til hvaða aðgerða skuli grípa. Mikill þrýstingur er á að Angela Merkel Þýskalandskanslari og Francois Hollande Frakklandsforseti nái saman um lausn. Á vef Reuters er haft eftir Pierre Moscovici, fjármálaráðherra Frakklands, að vilji sé þar í landi til að starfa með Þjóðverjum.

Merkel hefur talað fyrir áframhaldandi niðurskurði og aðhaldi í ríkisfjármálum. Hollande vill hins vegar reyna að stuðla að hagvexti og draga úr aðhaldinu. Hann hefur sagst hafa áhuga á að skuldir Evrópusambandslandanna verði sameinaðar og innistæðutryggingakerfið sömuleiðis. Þá hefur verið lagt til að stefnt verði að nánari samruna á ríkisfjármálum landanna.

Eins og greint hefur verið frá varð Kýpur í gær fimmta evrulandið til að óska eftir neyðaraðstoð frá ESB. Kýpur fylgdi fast á hæla Spánar sem þegar hefur fengið 100 milljarða evra neyðaraðstoð samþykkta.