Leiðtogi Fianna Fáil, helsta stjórnarandstöðuflokksins á Írlandi, segir úrsögn Bretlands úr Evrópusambandinu tækifæri til að sameina Írland.

Michael Martin, leiðtogi flokksins sem verið hefur við völd stærstan hluta af sögu írska lýðveldisins, segir að niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslunnar sem sýnir að meirihluti íbúa Norður Írlands vilji áframhaldandi veru Bretlands í ESB, gæti markað þáttaskil í sögu landshlutans.

Meðan bæði ríkin hafa verið verið í Evrópusambandinu hafa landamærin milli Norður Írlands, sem tilheyrir Bretlandi, og Írska lýðveldisins, verið sífellt opnari og fara nú tugir þúsunda daglega yfir landamærin til að sækja vinnu, til að versla og í dagsferðir. Með úrsögn Bretlands úr sambandinu hafa vaknað áhyggjur af því hvort upptaka landamæravörslu geti dregið úr þessu frjálsræði.

„Ég vona að þetta færi okkur í átt að meirihluta fyrir sameiningu, og ef það gerist ættum við að koma af stað þjóðaratkvæðagreiðslu um endursameiningu,“ sagði Michael Martin um mögulega sameiningu Norður Írlands við Írska lýðveldið.