Þörf er á samevrópsku fjármálaráðuneyti sem hefur völd yfir skattlagningu og útgjöldum aðildarríkja ESB til að koma evrusvæðinu út úr kreppunni.

Þetta segir Martin Blessing, bankastjóra Commerzbank sem er næst stærsti banki Þýskalands og jafnframt í 25% eigu þýska ríkisins.

„Við þurfum alvöru evrópskan fjármálaráðherra, sem fær þá viðeigandi völd,“segir Blessing í aðsendri grein í sunnudagsútgáfu þýska blaðsins Welt en Reuters fréttastofan greindi frá þessu í gærkvöldi þar sem hluti greinarinnar var aðgengilegur fjölmiðlum í gær.

„Með því að setja á stofn fjármálaráðuneyti á Brussel að hafa rétt til þess að afnema rétt landa til gerð eigin fjárlaga fari þau ekki eftir reglum,“ segir Blessing í grein sinni. Þá segir hann jafnframt að slík stofnun ætti að hafa rétt til þess að setja á eigin skatta og gefa út skuldabréf á hana, en þar vísar Blessing til umræðunnar um samevrópsk skuldabréf undanfarnar vikur.

Þá segir Blessing að þær tillögur sem Nicolas Sarkozy, forseti Frakklands, og Angela Merkel, kanslari Þýskalands, viðruðu í vikunni um sameiginlegar reglur um gerð fjárlaga ESB ríkja, gengu ekki nógu langt. Þannig sé þörf á því að stíga skrefið lengra og færa stjórn efnahagsmála undir einn hatt.

Sem kunnugt er kynntu þau Sarkozy og Merkel hugmyndir sínar í vikunni um samhæfðari reglur um gerð fjárlaga aðildarríkja ESB. Þá sögðu þau jafnframt að samræma þyrfti skattastefnu ríkjanna og loks að rétt væri að skattleggja fjármagnsflutninga á milli landa innan ESB. Þau gáfu þó lítið fyrir hugmyndina um samevrópsk skuldabréf sem að sögn Reuters olli fjárfestum í Evrópu nokkrum vonbrigðum.

Blessing segir í grein sinni að upptaka eigin þjóðargjaldmiðla sé eina svarið gegn því að setja á stofn samevrópskt fjármálaráðuneyti. Hann bætir því þó við að fari svo að evran verði aflögð muni það valda bæði efnahagslegu og stjórnmálalegu hruni í Evrópu.