Carlos Cruz, forstjóri Coca Cola á Íslandi segir að samræma þurfi áfengisskattinn hér á landi, en honum þykir það skjóta skökku við að bjórlítri beri 117,25 króna skatt meðan lítri á víni beri 106,8 krónu skatt.

„Málið er að við flytjum inn allt vín sem við neytum, en við og aðrir framleiðendur, framleiðum sjálf 70% af öllum bjór sem drukkinn er hér á landi," segir Cruz í samtali við Morgunblaðið .

„Ríkið skattleggur sem sagt innlenda framleiðendur hærra en þá sem flytja inn drykki."

Carlos er hagfræðingur frá Portúgal, en hann hefur nú dvalið í þrjú ár hér á landi, og stýrir hann því sem áður hét Vívilfell en hefur nú nýlega tekið upp nafnið Coca-Cola European Partners Ísland ehf.

„Ég er portúgalskur, og bý með eiginkonu minni hér á Íslandi í póstnúmeri 101," segir Carlos. „við eigum tvo uppkomna drengi sem búa í Madrid."

Áður hefur Carlos verið sendur til Spánar þar sem hann stjórnaði sambærilegri átöppunarverksmiðju í þrjú ár, en áður en Coca-Cola European Partners keypti Vívilfell var það í eigu Coca-Cola Iberian Partners, sem var í eigu Durella fjölskyldunnar frá Katalóníu á Spáni.

Í kjölfar þess að það fyrirtæki sameinaðist í Coca-Cola European Partners eiga fyrrverandi eigendur þess 34% í sameinuðu fyrirtæki, meðan The Coca-Cola Copany á 18% og 48% er skráð á markaði í New York, London, Amsterdam og Madrid.