Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra vill að Norðurlöndin hafi með sér samstarf í lyfjamálum. Þetta segir hann spurður um ummæli Páls Matthíassonar, forstjóra Landspítalans, um ofurdýr lyf. Í Viðskiptablaðinu í síðustu viku sagði Páll að ofurdýrar lyfjameðferðir gætu kostað yfir 100 milljónir króna á ári fyrir hvern einstakling. Hann kallaði eftir umræðu um þessar lyfjameðferðir meðal stjórnmálamanna og almennings sem myndi byggja á siðferðilegum grunni. Hvar eigi að draga mörkin og hvort það eigi yfirleitt að draga mörk.

Kristján telur að samstarf við Norðurlöndin um lyfjamál lúta bæði að innkaupum lyfja, en líka hvernig ákvarðanir eru teknar um notkun þeirra. „Kostnaður heilbrigðiskerfanna í þessum löndum eykst ár frá ári á þessu sviði og raunar er það sammerkt með öllum vestrænum ríkjum. Þau standa frammi fyrir miklum vexti í útgjöldum vegna þessara dýru lyfja. Þess vegna er að minni hyggju bráðnauðsynlegt að komast í samstarf við önnur ríki á þessu sviði,“ segir Kristján Þór.