Landsnet hefur gengið til liðs við Festu, miðstöð um samfélagsábyrgð sem stofnuð var árið 2011. Í tilkynningu segir að með aðild að Festu taki Landsnet þátt í mótun samfélagsábyrgðar á Íslandi, fái aðgang að tengslaneti Festu og hagnýtri þekkingu og rannsóknum á sviði samfélagsábyrgðar.

„Það er mikilvægt að sem mest sátt ríki í samfélaginu um hlutverk Landsnets og áherslur og að skilningur sé fyrir hendi á mikilvægi flutningskerfis raforku sem hluta af innviðum samfélagsins," er haft eftir Guðmundi Inga Ásmundssyni, forstjóra Landsnets, í tilkynningu. „Við viljum kappkosta að ná fram þessari sátt og þar er samfélagsábyrgð, samtvinnuð stefnu fyrirtækisins, mikilvæg,“

„Það er mikið ánægjuefni að fá Landsnet til liðs við Festu, þekkingarmiðstöð um samfélagsábyrgð fyrirtækja á Íslandi, og þau fjölmörgu fyrirtæki sem gengið hafa til samstarfs við okkur. Þau eru nú á sjöunda tug talsins en í sinni einföldustu mynd felst samfélagsleg ábyrgð fyrirtækja og stofnana í því að þau axli ábyrgð á þeim áhrifum sem þau hafa á fólk og umhverfi,“ segir Ketill B. Magnússon, framkvæmdastjóri Festu, í tilkynningu.