Bjarni Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra, telur öll rök hníga að því að farið verði í almennt útboð á eftirstandandi hlut ríkisins í Íslandsbanka. Það muni styrkja stöðu þjóðarbúsins að losa um þá 100 milljarða sem bundnir séu í bankanum.

Hann segir næsta skref vera að taka skýrslu ríkisendurskoðanda til umfjöllunar. „Við höfum gefið það út að finna þurfi nýtt fyrirkomulag á hvernig sölunni er háttað. Ég er því byrjaður að vinna að því og undirbúa tillögur til ríkisstjórnarinnar sem verða einnig ræddar í ráðherranefnd. Að öðru leyti ráðast næstu skref af markaðsaðstæðum.“

Gefið hefur verið út að fyrirkomulaginu þar sem sérstök ríkisstofnun haldi utan um eignarhlut ríkisins í fjármálafyrirtækjum verði breytt. Bjarna þykir vænlegra að eignasafni ríkisins í öllum almennum hlutafélögum verði komið fyrir undir einum hatti, sem annast skuli utanumhald þeirra.

„Varðandi sjálft sölufyrirkomulagið, þá finnst mér öll rök hníga að því að farið verði í almennt útboð en eins og var rætt í aðdraganda sölunnar núna síðast þá hefur það fyrirkomulag bæði kosti og galla. Það hefur sérstaklega kosti þegar þú ert að fara í frumskráningu, en það horfir aðeins öðruvísi við þegar þú hefur náð skráningunni. Engu að síður er það mín tilfinning að það sé það fyrirkomulag sem myndi hafa breiðastan stuðning. Með sínum kostum og göllum tel ég það vera líklegustu leiðina fyrir okkur til að halda áfram að losa um eignarhlut ríkisins í bankanum.“

Á endanum muni framhaldið svo ráðast af fleiri þáttum á borð við pólitíska samstöðu um áframhaldandi sölu og markaðsaðstæðum. „Það ræðst síðan af ytri aðstæðum hversu stóran hlut verður um að ræða og í hversu mörgum áföngum verður selt.“

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins sem kom út 15. september 2022.