Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, vill láta skoða þann möguleika að selja hlut í Landsvirkjun til lífeyrissjóðanna. Þetta kemur fram á vef Vísis en Bjarni hélt fund í Valhöll í morgun.

Ef þriðjungshlutur í Landsvirkjun væri seldur gæti það skilað rúmlega 100 milljörðum króna í ríkissjóð en Landsvirkjun hefur verið metin á 300 milljarða. Með þessu segir Bjarni að hægt væri að grynnka á skuldum ríkisins. Skilyrði fyrir kaupunum væri að ríkissjóður hefði forkaupsrétt að hlutaféinu ef það yrði selt aftur.

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, hefur áður sagt að það sé nauðsynlegt að auka eigið fé fyrirtækisins. Hörður hefur svarað fyrirspurn um þetta mál á þann veg að það sé ákvörðun eigandans hvort hluturinn verði seldur en ef fyrirtækið á að vaxa frekar er þörf á frekara fjármagni.