„Við seljum gjarnan eins fljótt og mögulegt er. En við  erum aftur á móti háð því að finna góða eigendur,“ segir Trond Giske, viðskiptaráðherra Noregs, um mögulega sölu á eignarhlut norska ríkisins í flugfélaginu SAS. Þetta kemur fram í frétt e24 um málið  í dag.


Félagið tilkynnti fyrr í dag um  1.132 milljóna sænskra króna tap á rekstri félagsins á fyrstu þremur mánuðum ársins. Það samsvarar tæplega 21 milljarði íslenskra króna.  Í kjölfarið lýstu þingmenn norsku stjórnarandstöðuflokkanna, Hægri og Framfararflokksins, því yfir að ríkið ætti að selja sinn hlut í félaginu.
Norski viðskiptaráðherrann segir að vel komi til greina að selja hlut ríkisins beri leitin að réttum eiganda árangur. Það komi hins vegar ekki til greina að norska ríkið komi með meira fé inn í rekstur félagsins.