*

sunnudagur, 13. júní 2021
Innlent 24. maí 2014 08:01

Vill sérstakt ferðamálaráðuneyti

Framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar segir að í dag sé ferðaþjónustan úti um allt í stjórnkerfinu og því sé ekki gengið í tak.

Trausti Hafliðason
Helga Árnadóttir, tók við sem framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar í desember síðastliðnum.

Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segir það skorta heildstæða stefnu í ferðamálum hjá hinu opinbera. Í því sambandi bendir hún á að þjóðgarðarnir heyri undir sitthvor ráðuneytin.

„Það getur ekki verið heildarhugsun á bak við það," segir Helga. "Ég spyr mig líka afhverju það sé ekki til sérstakt ferðamálaráðuneyti nú þegar þessi atvinnugrein er orðin jafnstór og raun ber vitni.

Við erum með sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti.  Með ráðuneyti ferðamála væri tryggt  að haldið væri utan um alla þekkingu, rannsóknir og stefnumótun á einum stað með það að markmiði að fylgja eftir og móta heildstæða stefnu í ferðamálum sem og að tryggja hagsmuni greinarinnar. Í dag er þessi málaflokkur úti um allt á mismunandi skrifstofum í stjórnkerfinu og fyrir vikið er ekki gengið í takt."

Helga segir að stundum gleymist ferðaþjónustan í umræðunni og tekur sem dæmi þegar uppi eru áform um að raska náttúrunni.

„Við höfum til dæmis áhyggjur af því ef leggja á raflínur yfir Sprengisand. Það er ofboðslega verðmætt svæði hvað varðar ímynd landsins því stór hópur ferðamanna er að koma hingað einmitt út af náttúrunni á hálendinu, þessari víðáttu og auðn sem þar er. Ferðaþjónustan er undirstöðuatvinnugrein en það gleymist of á tíðum að taka inn sjónarmið hennar í heildarmyndina þegar verið er að vega og meta svona kosti og taka ákvarðanir, þar sem hagsmunir greinarinnar eru gífurlegir"

Í Viðskiptablaðinu er viðtal við Helgu Árnadóttur, formann Samtaka ferðaþjónustunnar. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.