„Það kom mér skemmtilega á óvart að það er mikil eftirspurn eftir fólki með mína reynslu. Orðræðan er oft á þá leið að þeir sem unnið hafa í stjórnmálum eigi erfitt með að fá nýtt starf en það er að minnsta kosti ekki mín reynsla,“ segir Elliði Vignisson, nýráðinn bæjarstjóri í Ölfusi.

Elliði er enginn nýgræðingur í sveitarstjórnarmálum en hann starfaði sem bæjarstjóri Vestmannaeyja í tólf ár. „Ég geng sáttur frá því góða starfi sem unnið var meðan ég starfaði þar ásamt frábæru fólki í Vestmannaeyjabæ.“

Fullur eftirvæntingar

Hann segir að strax eftir síðustu kosningar hafi hann gert sér grein fyrir því að það yrðu breytingar á högum hans en á tímabili íhugaði hann alvarlega að söðla um yfir í einkageirann þegar ljóst var að hann yrði ekki lengur bæjarstjóri í Eyjum, en skipti um skoðun þegar fjölmörg sveitarfélög höfðu samband við hann. „Ég heyrði í mörgu áhugaverðu fólki víðs vegar að en ég bara kolféll fyrir Ölfusi og er fullur eftirvæntingar að hefja störf þar.“ Spurður hvaða mál hann muni leggja mesta áherslu á í störfum sínum segir hann að atvinnuvegamálin séu ofarlega í huga. „Ég mun að sjálfsögðu viðhalda því góða starfi sem unnið hefur verið í Ölfusi en ef ég á að nefna eitthvað eitt sem ég vil leggja frekari áherslu á þá eru það atvinnuvegamálin,“ segir hann.

Í Miami á Þjóðhátíð

Elliði segir að störf sín í sveitarstjórnarmálum hafi verið og séu hans helsta áhugamál frá því að hann hóf störf á því sviði. „Annars er ég líka mikill dellukall. Ég hef gaman af því að lesa ljóð og þeysast um á mótorkrosshjóli. Nú þegar ég er fluttur hingað með fjölskyldunni í Ölfus sé ég fram á að hafa meiri tækifæri til að sinna mótorkrossinu.“ Elliði er kvæntur Berthu Johansen og eiga þau tvö börn, þau Nökkva Dan og Bjartey Bríet. Elliði segir að fjölskyldan hafi tekið þá ákvörðun að sleppa þjóðhátíð í ár og fóru þau í staðinn til Miami til að undirbúa sig fyrir breytingarnar í haust. Hann segist að lokum vilja hvetja fólk til að fylgjast vel með starfinu í Ölfusi og komandi uppbyggingu í sveitarfélaginu.