Tíu klukkkustundir liðu frá því tölvuskeyti var sent frá Vodafone aðfaranótt síðasta laugardags og þar til netöryggissveit Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS) greip til ráðstafana vegna innbrots tyrkneska tölvuþrjótsins í netkerfi Vodafone. Skeytið var sent klukkan tvö um nóttina. Viðbúnaður fór í gang á hádegi á laugardag.

Hrafnkell V. Gíslason, forstjóri PFS, segir í samtali við fréttastofu RÚV engan á næturvakt hjá netöryggissveitinni. Hann mælir með því að sólarhringsvakt verði komið á.

Hrafnkell sagði jafnframt að tölvuþrjóturinn hafi gert árás á Símann og reynt að brjótast inn í tölvukerfi fyrirtækisins fyrir helgi og aftur í gær.