Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra hefur látið semja frumvarp til laga um starfsemi smálánafyrirtækja.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá efnahags- og viðskiptaráðuneytinu en þar segir að með frumvarpinu sé leitast eftir því að setja lagaumgjörð um starfsemi smálánafyrirtækja sem er sambærileg þeirri sem gildir um fjármálafyrirtæki.

Samkvæmt frumvarpinu verður starfsemi smálánafyrirtækja starfsleyfisskyld en starfandi fyrirtæki fá þriggja mánaða frest til þess að afla sér starfsleyfis. Þá verða smálánafyrirtæki gjaldskyld sem önnur starfsleyfisskyld fjármálafyrirtæki og ber þannig t.d. að greiða til rekstrar Fjármálaeftirlitsins og Umboðsmanns skuldara. Þannig mun Fjármálaeftirlitið hafa eftirlit með rekstri smálánafyrirtækja.

Þá verður smálánafyrirtækjum óheimilt að stunda hvers konar hliðarstarfsemi auk þess sem þau þurfa að vera með starfsábyrgðartryggingu.

Einnig verður skv. frumvarpinu óheimilt að lána til ólögráða einstaklinga, fólks með meðalatvinnutekjur síðastliðna 12 mánuði undir lægstu atvinnuleysisbótum, þeirra sem gengið hafa frá samningi um sértæka skuldaaðlögun á síðustu tólf mánuðum eða þeirra sem hafa hafið greiðsluaðlögunarumleitan eða lokið samningi um greiðsluaðlögun.

Þá verður aðeins heimilt að taka við og afgreiða lánsumsóknir á virkum dögum frá kl. 9 að morgni til kl. 17 síðdegis og óheimilt verður að greiða út lán fyrr en 48 klukkustundir eru liðnar frá samþykkt umsóknar. Innan þess tíma getur lánþegi gengið frá samningi án greiðslu nokkurs kostnaðar.

Loks verða vaxtakjör í smálánasamningum lögákveðin og settar verða ófrávíkjanlegar reglur um hámarksgjaldtöku smálánafyrirtækja.