*

föstudagur, 6. ágúst 2021
Innlent 27. maí 2013 10:04

Vill setja þrýsting á slitastjórnir

Róbert Wessman segir mikilvægt að leysa aflandskrónuvandann.

Ritstjórn
Birgir Ísl. Gunnarsson

Náist ekki að ljúka nauðasamningum þrotabúa gömlu bankanna fyrir næstu áramót þá ber slitastjórnum að setja þá í þrot, að mati Róberts Wessman, forstjóra lyfjafyrirtækisins Alvogen. Hann er jafnframt talsmaður hóps sem kallar sig Snjóhengjan og leggur áherslu á að leyst verði úr þeim vanda sem blasir við hagkerfinu vegna aflandskrónanna í þeim. Þetta eru krónur í eigu erlendra aðila og nema á bilinu 800 til 1.000 milljörðum íslenskra króna. 

Róbert var ásamt fleirum með erindi um málið á vegum Eyjunnar. Þar lagði hann m.a. áherslu á að skerpa á gjaldþrotalöggjöfinni og afnema undanþágur sem eru í gildi í dag varðandi þær íslensku krónur sem eru fastar á höfuðbók 27 og bera vexti. Undanþága í dag heimilar vaxtagreiðslur til erlendra eigenda í erlendri mynt. Hinsvegar þarf tafarlaust að afnema þessar undanþágur svo það sama gildir um þessa aðila og alla aðra aðila sem íslensk löggjöf varðandi takmarkanir á greiðslum úr landi nær til. Þá taldi hann einnig mega takmarka fjárfestingakosti þessara eigna enn frekar.