Áhugi erlendra fjárfesta á því að koma að orkufrekum iðnaði hér á landi hefur aukist mikið að undanförnu. Meðal svæða sem fjárfestar hafa horft til, þar sem þeir gætu komið að sem meðfjárfestar íslenskra orkufyrirtækja, er Þeistareykjasvæðið á Norðausturlandi. Martha Eiríksdóttir, formaður starfshóps sem skoðar möguleika á uppbyggingu orkufreks iðnaðar á Norðurlandi, segir mikla möguleika vera í boði og svo virðist sem áhugi fjárfesta sé að aukast frekar en hitt. „Við vinnum að því að kortleggja vel þá möguleika sem eru fyrir hendi. Það er mikill áhugi á orkufrekum iðnaði á Norðurlandi, bæði af hálfu mögulegra kaupenda orkunnar og svo ekki síður þeirra sem vilja koma að virkjunum sem eigendur þeirra á móti Landsvirkjun og eftir atvikum einhverjum öðrum,“ segir Martha. „Við erum að vinna ötullega að því að meta þá möguleika sem í boði eru og taka síðan ákvörðun um hvert skal stefna.“

Áhugi frá Texas – stuttur tími til stefnu

Einn þeirra sem sýnt hefur uppbyggingu orkufreks iðnaðar í Norðurþingi áhuga með virkjun jarðhita á Þeistareykjum er bandaríski fjárfestirinn Steve Munson. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hefur hann sýnt áhuga á að fjárfesta í virkjununum á Þeistareykjum og selja orkuna til gagnavers sem staðsett yrði við Húsavík. Á mánudaginn í síðustu viku fundaði hann ásamt fylgdarliði með heimamönnum í Norðurþingi og fór yfir þá möguleika sem hann sá fyrir sér. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins var háttsettur maður frá tölvurisanum Hewlett Packard (HP) með í för en Munson, sem er frá Texas og hefur um nokkurra ára skeið fjárfest í jarðhitaverkefnum og hagnast vel á hlutabréfaviðskiptum, sagðist sjá fyrir sér að gagnaver frá HP yrði kaupandi að orkunni, það yrði staðsett á Húsavík og starfsemin myndi stækka í áföngum yfir nokkurra ára tímabil. Martha vildi ekki tjá sig um áhuga Munsons þar sem um trúnaðarsamskipti væri að ræða á þessu stigi. Hins vegar staðfesti hún að hann væri einn þeirra sem sýnt hefði áhuga á fjárfestingum á svæðinu. „Við höfum fundað reglulega með aðilum sem áhuga hafa á svæðinu og því verður fram haldið á næstunni í takt við upplegg okkar vinnu, sem er að vera komin með fjárfesta og kaupendur að orkunni fyrir 1. október 2010. En það verður að vanda til verka og láta ekki tímarammann að öllu leyti stjórna því hvernig hlutirnir ganga fyrir sig. Eins og málin hafa þróast sé ég fyrir mér að áætlanir um ganga frá samningum við orkukaupanda innan árs geti gengið eftir,“ segir Martha. Skrifað var undir viljayfirlýsingu 22. október í fyrra sem ríkisstjórnin, Norðurþing, Skútustaðahreppur og Þingeyjarsveit, sem öll eiga hagsmuna að gæta þegar kemur að Þeistareykjarsvæðinu, eiga aðild að. Samkvæmt henni er lagt upp með að ljúka fyrstu athugun á mögulegum samstarfsaðilum fyrir 1. april nk. og 1. október á allri undirbúningsvinnu vegna frekari samninga að vera lokið. Þann 1. mars á næsta ári, eftir ellefu mánuði, á að liggja fyrir samningur við „stóran“ orkukaupanda eða kaupendur, eins og það er orðað í viljayfirlýsingunni. Tímaramminn sem unnið er eftir er því stuttur, eða innan við ár frá deginum í dag.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu sem gefið var út sl. fimmtudag.