„Ég vona almennt að allir verði sem glaðastir á kjörtímabilinu og skili betri vinnu. Ég ætla ekki að láta mitt eftir liggja,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra í síðustu ræðu dagsins á Alþingi. Sigmundur hóf daginn með munnlegri skýrslu um störf ríkisstjórnarinnar. Að því loknu tóku við umræður um hana en þar gagnrýndu stjórnarandstæðingar stefnu ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks.

Gamlir pólitískir frasar

Sigmundur sakaði stjórnarandstæðinga um að skálda upp hvað ný ríkisstjórn ætli að gera. Þar á meðal sé sagt að í bígerð sé að einkavæða heilbrigðiskerfið, áhyggjur hafi verið viðraðar af fyrirhuguðum niðurskurði og fleiru í þeim dúr. Hann varaði þá við hættunni af því að hengja sig í gamla pólitíska frasa. „Menn verða að vera ófeimnir við að finna nýjar lausnir,“ sagði Sigmundur.

Skattur undir 100% er ekki gjöf

„Þegar kemur að niðurskurði verða menn að fara varlega. Það stendur ekki til neitt annað en að passa upp á það,“ áréttaði forsætisráðherra og gagnrýndi stjórnarandstöðuna fyrir það viðhorf í skattamálum að öll skattlagning undir 100% skatti væri gjöf. Það sýndi sig að svo væri ekki, allra síst í ferðaþjónustu.

Hann vísaði til fundar um ferðaþjónustu í morgun þar sem sérstaklega var mælt gegn skattlagningu á ferðaþjónustu. Slíkt myndi fæla ferðamenn frá, þeir myndu hvorki kaupa gistingu, mat né annað.