„Afnám tollverndar mun væntalega leiða til þess að innflutningur verður að stórum hluta í höndum birgðahúsa verslunarkeðja og leiða til verðmyndunar búvara með þeim hætti að stærri hluti álagningar falli smásölum í skaut,“ að mati Ernu Bjarnadóttur, hagfræðings Bændasamtaka Íslands.

Erna Bjarnadóttir
Erna Bjarnadóttir

Erna benti á það í erindi sínu á ráðstefnu Samkeppniseftirlitsins í morgun um verðþróun á og samkeppni á dagvörumarkaði að slík þróun gæti flokkast til slysa.

Erna kom inn á verðmun á dagvöru hér á meginlandi Evrópu og benti á að árið 2009 hafi verð á kjöti, osti og eggjum verið hlutfallslega lægra hér en í aðildarríkjum Evrópusambandsins. Á sama tíma hafi hins vegar verð á innfluttum matvörum verið hærra.

Hún talaði gegn því að selja vörur undir kostnaðarverði og benti á að slíkt væri bannað í mörgum löndum. „Það getur verið skynsamlegt til skemmri tíma litið að lækka verð til að ná sér í viðskiptavini. En til lengra tíma litið er það ekki skynsamleg aðferð,“ sagði hún.

Leitum fyrirmynda erlendis

Þá hvatti Erna til þess að leitað verði fyrirmynda erlendis, svo sem til Bretlands, þar sem settar hafi verið reglur sem auka eigi samkeppni, svo sem ítarlegar starfsreglur þar sem kveðið er á um að  skriflega samninga. Þá hefur verið leitast við að tryggja að stórar smásölukeðjur geti ekki misnotað aðstöðu sína með því að flytja kostnað yfir á birgja sína. Það sé slæmt bæði fyrir framleiðendur og neytendur.

„Ég tel að við eigum að leita fyrirmynda í nágrannalöndunum, banna sölu vara undir kostnaðarverði, skýra reglur og löggjöf um samskipti smásöluverslana og birgja, svo sem varðandi skilarétt, setja á stofn embætti Umboðsmanns matvöruviðskipta líkt og unnið hefur verið að Bretlandi,“ sagði Erna.