Sir James Crosby, fyrrverandi bankastjóri breska bankans Halifax Bank of Scotland (HBOS), hefur boðist til að skila riddaratign sinni og taka sér lægri lífeyri en hann á rétt á. Crosby var krýndur riddari árið 2006 fyrir störf sín í bankageiranum. Í nýlegri skýrslu breskra fjármálayfirvalda er honum gefið að sök að hafa stýrt bankanum í átt að þroti.

HBOS varð til með samruna fjármálafyrirtækisins Halifax og Bank of Scotland árið 2001. Crosby, sem var forstjóri Halifax, settist í forstjórastól sameinaðs fyrirtækis og sat þar fram til ársins 2006. Bankinn fór á hliðina í fjármálakreppunni og tók Lloyds rekstur hans yfir árið 2009.

Auk þess að hljóta riddaratign fyrir störf sín fær Crosby 580 þúsund pund á ári í lífeyri. Það gera 105 milljónir króna á ári. Hann hefur nú óskað eftir því að greiðslan verði lækkuð um 30%.

Breska ríkisútvarpið (BBC) segir Crosby annars vel metinn í breskum fjármálageira og bendir á hann var m.a. formaður stjórnar breska fjármálaeftirlitsins á árunum 2007 til 2009.