Áfrýjunarnefnd leggur fyrir Samkeppniseftirlitið að taka að nýju til athugunar hvort unnt sé að setja kaupum Landsbankans á eignarhlut í verðbréfafyrirtækinu Verdis skilyrði.

Landsbankinn skrifaði í mars í fyrra undir viljayfirlýsingu um kaup á nýju hlutafé í Verdis, sem þá hét Arion verðbréfavarsla. Fyrirtækið var dótturfélag Arion banka. Samkeppnisyfirlitið ógilti hins vegar samrunann á þeim forsendum m.a. að þar sem Landsbankinn myndi í kjölfarið hætta eigin verðbréfaumsýslu og kaupa þjónustu frá Verdis þá myndi fyrirtækið njóta yfirburða á markaðnum.

Þetta var í samræmi við niðurstöðu skýrslu Samkeppniseftirlitins sem kom út í fyrra. Þar var bent á að mikil fákeppnig og samþjöppun sé á íslenskum fjármálamarkaði. Skortur á samkeppni geti haft mjög neikvæðar afleiðingar, bæði fyrir íslenskt atvinnulíf og neytendur.

Samrunaaðilar kærðu ákvörðun Samkeppniseftirlitsins til áfrýjunarnefndar samkeppnismála. Með úrskurði, 16. febrúar sl., hefur áfrýjunarnefndin ógilt ákvörðunina. Áfrýjunarnefnd tekur ekki afstöðu til efnisþátta málsins í úrskurði sínum en leggur fyrir Samkeppniseftirlitið að taka að nýju til athugunar hvort unnt sé að setja samrunanum skilyrði. Kemst áfrýjunarnefndin að þeirri niðurstöðu að áfrýjendur hafi haft réttmæta ástæðu til að ætla að þeirri meðferð sem hafin var undir rekstri málsins til þess að freista þess að setja samrunanum viðunandi skilyrði hafi ekki verið lokið er ákvörðunin var tekin.

Lagt er fyrir Samkeppniseftirlitið að veita áfrýjendum stuttan frest til að setja fram endanlegar tillögur um skilyrði fyrir samrunanum af sinni hálfu á grundvelli þeirra markmiða sem Samkeppniseftirlitið telur að verði að nást til að fullnægja þeim samkeppniskröfum sem gerðar eru, að því er fram kemur í tilkynningu.

Fyrir Samkeppniseftirlitinu liggur því að taka málið að nýju til meðferðar í samræmi við úrskurð áfrýjunarnefndar.