Vandi íbúðalánasjóðs er stórlega vanmetin og nauðsynlegt er að skipta sjóðinum í tvennt, að mati Péturs Blöndal þingmanns Sjálfstæðisflokks. Hann telur að stofna þurfi nýjan sjóð sem veiti félagsleg lán til þeirra sem geta ekki fengið lán annars staðar, ýmist vegna fjárhagsaðstæðna eða vegna búsetu. Hann vill að kröfuhafar taki yfir eldri sjóðinn.

„Við verðum að skoða hvar við erum að veita ríkisábyrgðir út um allt. Ríkissjóður á ekki að styrkja fólk sem getur fengið lán annars staðar, það er ekki styrkjaþurfi. Margir aðrir þurfa styrk og við eigum að einbeita okkur að þeim hópum,“ sagði Pétur.

Sérstök umræða um málefni Íbúðalánasjóðs fór fram á Alþingi í dag. Málshefjandi var Bjarni Benediktsson. Drjúgur hluti umræðunnar fór í að ræða fortíð sjóðsins og hverjir væru ábyrgðir fyrir stöðu hans í dag.

Bjarni hóf umræðuna og spurði hvers vegna ríkið stæði nú frammi fyrir 46 milljarða ríkisframlagi til sjóðsins. Hann spurði einnig hvernig stjórnvöld hygðust bregðast við uppgreiðsluvanda sjóðsins en hounm er ekki leyfilegt að greiða upp skuldir sínar gagnvart kröfuhöfum. Bjarni benti á að markaðsvirði krafna sé um 200 milljörðum hærra en eignir sjóðsins standi undir. Því sé nauðsynlegt að spyrja hverjar líkurnar séu á því að í náinni framtíð reyni á ríkisábyrgð á lánum sjóðsins. Bjarni sagði að ræða þurfi hvert inntak ríkisábyrgðarinnar sé, hvort hún feli í sér ábyrgð á höfuðstól lána með áföllnum vöxtum eða greiðslur langt inn í framtíðina.

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra var til svara og rakti sögu stuttlega sögu sjóðsins og þær kerfisbreytingar sem voru gerðar árið 2004. Þá var útgáfu húsnæðisbréfa hætt og ný íbúðabréf gefin út sem ekki er hægt að greiða upp. Guðbjartur sagði þetta áminningu um að vanda þurfi til verka.

Guðbjartur tók undir orð Bjarna um að helsta áhætta sjóðsins væri uppgreiðsluáhætta, þar væru verulegar upphæðir í húfi. Þá sé það áhyggjuefni að um 15% af eignasafni, samtals um 125 milljarðar, séu í vanskilum. Hjápa þurfi þeim sem ekki geta greitt skuldir sínar og tryggja að þeir geti greitt af lánum sínum.

Undir lok umræðunnar spurði Bjarni hvers vegna ákvæði um að leggja á uppgreiðsluþóknun við sérstakar aðstæður hafi ekki verið beitt, þrátt fyrir að vandi sjóðsins hafi legið fyrir lengi.

Í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag er fjallað um þessa heimild sem kveðið er á um í lögum um húsnæðismál. Ákvæðið veitir ráðherra heimild til að gefa út reglugerð sem kveður á um greiðslu sérstakrar þóknunar fyrir aukaafborganir af lánum eða uppgreiðslu lána hjá Íbúðalánasjóði. Þóknunina má því leggja á þá lántakendur sem hyggjast greiða fasteignalán sín upp hraðar eða að öllu leyti.