„Við kúabændur viljum ekki að svona sé staðið að málum. Okkur er umhugað um orðstír Mjólkursamsölunnar og viljum ekki að honum sé stefnt í voða,“ segir Egill Eiríksson, kúabóndi og aðalfulltrúi í fulltrúaráði Auðhumlu, í samtali við Fréttablaðið . Þar kemur fram að kúabændur sem eru aðilar að Auðhumlu, og þar með eigendur að Mjólkursamsölunni, vilji að boðað verði til fulltrúaráðsfundar þar sem kjörin yrði ný stjórn Auðhumlu.

Egill vill jafnframt skipta út forstjóra Mjólkursamsölunnar. Segir hann að í ljósi þeirrar stöðu sem uppi sé núna væri réttast að kalla til fulltrúaráðsfundar þar sem ný stjórn yrði kjörin og í framhaldi af því myndi hún ráða nýjan forstjóra Mjólkursamsölunnar.