Þingfundur stendur nú yfir á Alþingi. Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, heldur uppi talsverðum hraða á þingstörfum enda liggja 23 mál fyrir þinginu í dag.

Þingmenn rökræddu hagkvæmniathugun á lestarsamgöngum fyrir skemmstu og var þingsályktunartillaga þess efnis samþykkt. Þingmenn létu ýmis skemmtileg ummæli falla í umræðum um hagkvæmniathugunina.

Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna, sagðist styðja slíka athugun. Vert væri að kanna hagkvæmni lestarsamgangna milli Reykjavíkur og Keflavíkur. Til lengri tíma væri ef til vill vert að stækka slíkt kerfi til Árborgar og annarra sveitarfélaga í nágrenni Reykjavíkur.

Ríkispeningavæðingarhugmynd

Róbert Marshall benti á að aðeins væri um hagkvæmniathugun að ræða og ásakaði Höskuld Þórhallsson, formann umhverfis- og samgöngunefndar, um að vera hræddan við niðurstöðu slíkrar hagkvæmniathugunar. Vigdís Hauksdóttir sagðist ekki styðja ríkispeningavæðingarhugmyndir vinstrimanna í léttlestarmálum. „Almenningur á að borga fyrir allar hugmyndir Vinstri grænna og Samfylkingarinnar,“ sagði Vigdís. Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, studdi ekki málið. Sagði hann að 10-16 mislæg gatnamót á höfuðborgarsvæðinu myndu minnka útblástur frá bílum um 20-50%.

Ögmundur Jónasson sagði það vera ákveðið stílbrot að samþykkja tillöguna. Á Alþingi væru vinnubrögðin yfirleitt þau að samþykkja ákvarðanir áður en kostir og gallar séu kannaðir. Hann sagði að málið snerist um það hvort Reykjavík ætlaði að vera „Houston norðursins með 20 akreinum fyrir bíla, eða færa okkur inn í 21. öldina með nútíma vistvænum samgöngubótum.“