Skoða á réttarstöðu ríkisstofnana sem höfðu gert ráð fyrir því að fá IPA-styrki Evrópusambandsins (ESB) en fá þá ekki eftir að hlé var gert á aðildarviðræðum íslenskra stjórnvalda við ESB, að sögn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra. Hann sagði í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag að þótt hann hafi ekki verið sérlega hrifinn af IPA-styrkjunum þá hafi ýmsar stofnanir verið búnar að gera ráðstafanir til að taka á móti styrkjunum. Í kjölfar þess að ákveðið var að ESB veiti þá ekki kunni svo að fara að kostnaður falli á stofnanirnar.

Það var Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, sem spurði Sigmund að því á Alþingi hvaða vinna er í gangi í tengslum við styrkina og hvort ríkisstjórnin ætli að knýja greiðsluna fram úr hendi ESB.

„Mér þætti eðilegt að ESB afgreiddi það sem búið væri að ákveða,“ sagði Sigmundur.