Íslenskur fjárfestir segir óeðlilegt ef menn skoði ekki möguleikann á ræktun kannabis hér á landi til útflutnings að því er kemur fram í Bændablaðinu .

Gríðarlegur vöxtur hefur verið í framleiðslu á kannabis í heiminum í dag, bæði í lækningaskyni og til einkanota. Fyrirtæki í Kanada eru leiðandi í framleiðslunni í Norður-Ameríku en BBC greindi m.a. frá því að tvö þeirra, Aurora Cannabis og CanniMed Therapeutics, eru nú að sameinast í sex milljarða dala fyrirtæki.

„Vöxturinn í greininni er ævintýralegur í dag og tekju­möguleikarnir miklir en þeir eiga örugglega eftir að dragast sama eftir því sem framleiðslan eykst.

Það sem þarf til að rækta kannabis er vatn og rafmagn. Við höfum nóg af hvoru tveggja og ég sé ekkert því til fyrirstöðu að við getum ræktað kannabis til útflutnings í stórum stíl hér á landi.

Landbúnaður á Íslandi í dag á í erfiðleikum og ræktun á kannabis er að mínu mati góð leið til að efla hann,“ hefur Bændablaðið eftir Árni Þór Árnasyni, fjárfestir og fyrrverandi framkvæmdastjóri. Árni hefur sjálfur verið að fjárfesta í kannabisframleiðslu í Kanada, meðal annars í fyrrnefndu Aurora. Árni segir að fjárfestingin hafi reynst vel og fjór- eða fimmfaldast á einu ári í þremur stærstu fyrirtækjunum.

„Ég hef aðeins grennslast fyrir um gæða kannabis sem ræktað er ólöglega á Íslandi hjá lögreglunni og mér er sagt að framleiðslan sé mjög góð. Við í nýsköpunargeiranum höfum stundum haft í flimtingum að kannabisræktun á Íslandi sé nýsköpun sem hefur heppnast vel en sé á sama tíma ólögleg og gerð upptæk,“ segir hann.