Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, forstjóri Saga Capital, kallar eftir því að Landsvirkjun og Orkuveita Reykjavíkur verði skráð í Kauphöll Íslands. Hann telur mikilvægt að hlutabréfamarkaðurinn sé þversnið af atvinnulífi landsins og endurspegli náttúrulega styrkleika þjóðarinnar.

„Ég tel að það eigi að koma til alvarlegrar skoðunar að opna eignarhald Landsvirkjunar og Orkuveitu Reykjavíkur,“ segir hann í samtali við Viðskiptablaðið. Og nefnir að orkan sé eitt það vænlegasta sem við búum yfir til þess að laða erlent fjármagn hingað til lands. En vart þarf að nefna hve fjármagnsþurfi þjóðin er í kjölfar hruns viðskiptabankanna. Aukinheldur veltir hann fram spurningunni hvort ekki eigi að leyfa erlendum fjárfestum að eignast stærri hluti í íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum.

„Við verðum að passa það að hlutabréfamarkaðurinn verði ekki lagður af og þar með eyðilagður þessi grundvöllur, bæði fyrir fyrirtæki til að sækja sér fjármagn og fyrir fjárfesta að hafa möguleika á að fjárfesta í hlutabréfum,“ segir Þorvaldur Lúðvík.

Skref aftur um tíu ár

Landslagið á íslenskum hlutabréfamarkaði hefur tekið stórstígum breytingum á síðustu árum. Fjöldi skráðra fyrirtækja náði hámarki um aldamótin þegar þau voru 77 en Þorvaldur Lúðvík gerir ráð fyrir því að þau verði 17 árið 2009. „Við höfum ferðast tíu ár aftur í tímann,“ segir hann um síðustu sviptingar.

_______________________________________

Nánar er fjallað um  málið í Viðskiptablaðinu í dag.

Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .