Pétur Steinn Guðmundsson, lögfræðingur hjá Deloitte, vill að hugtakið skuggastjórnun verði tekið inn í íslenskt lagaumhverfi til þess að taka á raunveruleikanum. Hugtakið er ekki að finna í íslenskum rétti en víða þekkt erlendis. „Í sinni einföldustu mynd eru skuggastjórnendur þeir sem eru að stýra félögum án þess að vera skráðir stjórnendur. Í viðskiptalífinu hérlendis eins og alls staðar annars staðar eru einstaklingar að stýra fyrirtækjum í gegnum aðra,“ segir Pétur.

Hann segir það ekki endilega vera neikvætt fyrir félög að vera með skuggastjórnendur. Það verður ekki neikvætt fyrr en skuggastjórnendur fari að misnota vald sitt. Samkvæmt honum geta allir komið sér í þá stöðu var vera skuggastjórnendur, hvort sem þeir ætli sér það eða ekki.

Íslenska bankaumhverfið

Aðspurður hvort lög um skuggastjórnendur séu viðeigandi á Íslandi svaraði Pétur játandi. „Ef bankaumhverfið er skoðað þá held ég að það sé mjög oft að bankarnir vinni í endurskipulagningu fyrirtækja og taki ákvarðanir fyrir fyrirtæki án þess að vera eignaraðilar að þeim og ákvarðanirnar eru þar af leiðandi ekki teknar á lögformlegum hluthafafundum. Þá eru mörg sjónarmið sem styðja að þeir séu skuggastjórnendur. Þess vegna þurfa bankarnir að stíga innstigið hvað skuggastjórnun varðar,“ segir Pétur.

Til í Bretlandi

Í bresku lagaumhverfi er skuggastjórnun viðurkennd. Þar ber skuggastjórnandi trúnaðarábyrgð gagnvart félaginu og hluthöfum eins og um kjörinn stjórnarmann væri að ræða. Eins hafa þeir sömu réttindi og skyldur og kjörnir stjórnarmenn. Skilyrði fyrir að um skuggastjórnanda sé að ræða samkvæmt breskum réttu eru að viðkomandi þarf að hafa gefið stjórn félagsins fyrirmæli með endurteknum hætti, eitt tilvik nægir ekki. Einnig þarf stjórnin að hafa farið að fyrirmælum viðkomandi aðila.

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum tölublöð.