Fréttablaðið greindi frá því í síðustu viku að á sama tíma og Orkuveita Reykjavíkur seldi eignir sem ekki tengjast kjarnastarfsemi fyrirtækisins væri sumarhús sem fyrirtækið á við Þingvallavatn ekki sett á sölulista.

Kjartan Magnússon, stjórnarmaður Orkuveitu Reykjavíkur, segir í samtali við Fréttablaðið í morgun að málið hafi komið sér í opna skjöldu. „Ég vissi að það væri bústaður þarna einhvers staðar en mér var aldrei sagt að það væri bústaður sem forstjórinn einn hefði aðgang að.“

Kjartan segir ekkert hafa verið talað um að forstjórinn hefði eitthvað með bústaðinn að gera, réði honum og hefði hann útaf fyrir sig. Hann hafi talið að húsið væri í niðurníslu og að hruni komið. Á hann von á því að skýringar verði gefnar á notkun hússins á stjórnarfundi Orkuveitu Reykjavíkur.

Til stendur að leggja af sumarhúsabyggð í Nesjavallalandinu, þar sem bústaðurinn er staðsettur, meðal annars vegna vatnsbóls sem þar er. Bjarni Bjarnason, forstjóri OR, hefur sagt að verði það niðurstaðan verði bústaðurinn fyrstur til að hverfa.