Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir borgarfulltrúi og fyrrverandi oddviti Framsóknarflokksins í Reykjavík, gagnrýnir fjármálastjórn meirihlutans í Reykjavík harðlega í grein sem birtist í Morgunblaðinu í dag.  Skýtur hún föstum skotum á Dag B . Eggertsson borgarstjóra, sem hún segir vera bíræfinn stjórnmálamann.

„Sumir stjórnmálamenn eru síðan svo bíræfnir að þeir ákveða að skera niður í viðhaldi, t.d. gatna og skólabygginga, en eyða þess í stað peningunum í gæluverkefni," skrifar Sveinbjörg Birna. "Afleiðingarnar af slíkri hegðun dyljast engum. Því miður eiga þessar lýsingar við um Dag B . Eggertsson, borgarstjóra Reykjavíkur. Í stjórnartíð hans hafa skuldir A-sjóðs Reykjavíkurborgar aukist verulega. Degi væri nokkur vorkunn ef tekjur borgarinnar hefðu staðið í stað en svo er hins vegar ekki. Skattar og gjöld hafa hækkað verulega á kjörtímabilinu. Dagur hefur því haft úr nógu að spila.

Þegar skuldir borgarinnar aukast þrátt fyrir gríðarlega tekjuaukningu þýðir það bara eitt: Vonlaus fjármálastjórn. Það er mikilvægt fyrir unga kjósendur að gera sér grein fyrir þessu. Í framtíðinni þarf fleiri krónur frá ykkur til að borga skuldirnar sem Dagur B . Eggertsson safnar í dag. Það er því þörf á „Soffíu frænku“ í borgarstjórn."

Eftir að Sveinbjörg Birna sagði skilið við Framsóknarflokkinn síðasta sumar hefur hún setið sem óháður borgarfulltrúi.