Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi Hæstaréttardómari, segir að íslenskir dómstólar hafi undanfarin misseri starfað að þessum málum sem tengjast uppgjöri vegna bankahrunsins „án þess að hafa notið þess fjárhagslega tilstyrks sem er í reynd forsenda þess að vel takist til“ eins og hann orðar það.

Þetta segir Jón Steinar í grein sem hann skrifar í Morgunblaðið í dag. Jón segir að þjóðin verði að taka sig verulega á. „Það verður að stórauka fjárveitingar til dómstóla til þess að gera þeim kleift að vinna þessi verk á þann hátt sem við hljótum öll að vilja. Í þessu skyni þarf að tryggja nægilega mikinn mannafla og svo líka að gera störfin eftirsóknarverð fyrir hina hæfustu lögfræðinga, sem hafi yfir kostum að búa sem þarf til að fjalla um málin af hlutlægni og yfirvegun,“ segir Jón Steinar.

Hann segir að sér sé ljóst að núverandi innanríkisráðherra, Hanna Birna Kristjánsdóttir, hafi ríkan vilja til að gera úrbætur. „Ég skora á aðra alþingismenn að leggjast nú á árarnar með henni og tryggja dómstólum þann fjárhagslega tilstyrk sem þarf til að fást við þessi þýðingarmiklu verkefni,“ segir Jón Steinar. Hann segir að það þurfi að taka þennan málaflokk út úr og tryggja fjárveitingar til hans þó að aðrar þarfir þurfi ef til vill að sitja á hakanum þar til betur árar.