*

fimmtudagur, 28. október 2021
Innlent 21. apríl 2021 15:58

Vill svör um launastefnu Play

Varaforseti ASÍ kallar eftir svörum frá lífeyrissjóðum sem fjárfestu í Play um kjaramál flugfélagsins.

Ritstjórn
Kristján Þórður Snæbjarnarson, varaforseti ASÍ

Kristján Þórður Snæbjarnarson, varaforseti Alþýðusambands Íslands (ASÍ) vill fá skýr svör frá lífeyrissjóðunum sem fjárfestu í Play um hvernig gerð kjarasamninga starfsfólks flugfélagsins var háttað. 

„Í mínum huga er þetta grundvallaratriði sem minn lífeyrissjóður þarf að hafa á hreinu þegar komið er í slíkar fjárfestingar og það getur vel verið að þetta komi fram þegar fjárfest var en mjög brýnt er að það verði opinberað. Siðferði fjárfestinga lífeyrissjóða skiptir lykilmáli og ef vafi leikur á siðferðislegu ágæti fjárfestinganna þá ættu sjóðirnir ekki að koma nálægt slíku!“ skrifar Kristján í færslu á Facebook. 

Samkvæmt hluthafalista sem Play birti í dag eru lífeyrissjóðirnir Birta og Lífsverk meðal stærstu hluthafa flugfélagsins.

Stuttu eftir að tilkynnt var um stofnun Play í nóvember árið 2019 bárust fréttir um að launakostnaður vegna flugmanna og flugliða yrðu um 27%-37% lægri en hjá WOW air. Play gerði kjarasamninga við stéttarfélagið Íslenska flugstéttarfélagið (ÍFF). Arnar Már Magnússon, fyrrverandi forstjóri Play, sagði við Vísi á sínum tíma að starfsmannakjör félagsins yrðu „byggð upp með öðrum hætti en áður hefur tíðkast“ en að Play muni bjóða upp á „mjög góð laun“. 

Kristján segir að þegar kjarasamningarnir voru gerðir hafi ekki verið til starfsmenn sem sinntu umræddum störfum fyrir flugfélagið. 

„Var verkalýðsfélagið til sem samdi við fyrirtækið? Eða var samið við þau verkalýðsfélög sem eru hér á íslenskum vinnumarkaði?“ spyr Kristján. Hann óskar eftir skýrum svörum við þessum spurningum ásamt því að kjarasamningur verði opinberaður. 

Ég er búinn að reyna að sitja á mér en ég finn mig knúinn til þess að tjá mig um þessa fjárfestingu sem...

Posted by Kristján Þórður Snæbjarnarson on Wednesday, 21 April 2021