Unnið er að því að breyta lögum á þann veg að takmarka kaup útlendinga á jörðum. Steingrímur J. Sigfússon, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, hefur skipað starfshóp til að endurskoða jarðalögin. Hann segir að trauðla muni nást að leggja þau fram á yfirstandandi kjörtímabili, en mögulega náist þó að kynna það þannig að efnið komist í umræðuna.

„Ég hefði helst viljað sjá samræmt farið yfir þetta, lögin um fasteignir og jarða- og ábúðarlögin, og eftir atvikum jafnvel líka það sem vonandi ratar inn í stjórnarskrá um sameign á auðlindum og víðtækari stefnumörkun sem snýr að meðferð á landi og meðferð og ráðstöfun lands inn í framtíðina," segir hann í samtali við Fréttablaðið.

Í blaðinu segist Steingrímur styðja hugmyndir Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra um takmörkun og telur að í raun sé ekki mikill ágreiningur á meðal stjórnmálamanna í málaflokknum. Samstaða hljóti að nást um að að tryggja möguleika landbúnaðarframleiðslu og nýtingu, í þágu almannahagsmuna, á jarðnæði á Íslandi.

„Ég styð hann í því að við eigum að hafa tilteknar varnir í lögum af þessu tagi. Það væri glæfraskapur að gera það ekki, því heimurinn er stór og Ísland er lítið og það eiga margir mikið af peningum. Ég held að það vilji enginn vera með ónotatilfinningu fyrir því að við séum algjörlega berskjölduð í þessum efnum," segir hann.