Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra vill leggja fram þingsályktunartillögu um breytingar á RÚV seint næsta vor. Þetta kemur fram í samtali hans við Morgunblaðið í tilefni nýbirtrar skýrslu nefndar um starfsemi og rekstur RÚV.

Þar segir Illugi að hann telji ástæðu til að meta kosti og galla rekstrarforms RÚV sem opinbers hlutafélags og hvort tilefni sé til að breyta því. „Það væri skrítið ef við myndum ekki setjast niður núna, í ljósi þessara breytinga, og spyrja okkur hvernig þessum markmiðum verður best náð,“ segir hann í viðtalinu.

„Ég tel að við þurfum að ráðast í þessa vinnu á næstu mánuðum og byrja að móta slíkar hugmyndir. Ég held að það væri t.d. spennandi leið fyrir okkur að leggja afrakstur slíkrar vinnu fram í formi þingsályktunartillögu á Alþingi. Þannig gæti umræða farið fram á Alþingi, t.d. seint næsta vor. Á grundvelli niðurstöðu sem þar fengist, og afgreiðslu á slíkri þingsályktunartillögu, gætu menn síðan stigið næstu skref,“ segir Illugi