*

miðvikudagur, 28. júlí 2021
Innlent 1. maí 2013 18:16

Vill þjóðarsátt um auknar fjárfestingar í atvinnulífinu

Gylfi Arnbjörnsson segir að ekki sé bara hægt að kenna alþjóðakreppunni um hæga endurreisn hér á landi.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Fyrir liggur að endurreisn atvinnulífsins eftir hrunið hefur gengið allt of hægt, að mati Gylfa Arnbjörnssonar, forseta ASÍ. Í 1. maí ræðu sinni sagði hann að hluta til megi skrifa þetta á alþjóðlega efnahagskreppu. „En sökin er líka hjá stjórnvöldum sem ekki hafa skapað þau skilyrði sem eru forsenda vaxtar og atvinnusköpunar. Hik og stefnuleysi stjórnvalda hefur komið sérstaklega illa niður á atvinnuuppbyggingunni og afleiðingarnar blasa við. Enginn vafi er um það í mínum huga, að þetta er megin skýringin á slæmu gengi þeirra flokka sem mynduðu síðustu ríkisstjórn,“ sagði hann.

Til framtíðar þarf að stefna að sjálfbærri nýtingu náttúrugæða til uppbyggingar íslensku atvinnulífi og þörf sé á fleiri grænum störfum að mati Gylfa. „Auk þekktra kosta eins og ferðaþjónustu, orkuauðlinda og ferskvatns má nefna spennandi samspil á nýtingu varma sem afgangsstærðar við raforkuframleiðslu með jarðhita. Þessi varmi mun í framtíðinni leggja grundvöll að víðtækum lífrænum efnaiðnaði hér á landi. Að sama skapi verður Ísland að nýta sér samkeppnisforskot sitt í hreinum matvælaiðnaði með sjálfbærni og fullnýtingu á sjávarfangi og afurðum í landbúnað, en til þess þurfum við betra aðgengi að erlendum mörkuðum.“

Stikkorð: ASÍ Gylfi Arnbjörnsson 1. maí