*

miðvikudagur, 4. ágúst 2021
Innlent 20. mars 2015 16:30

Vill þróa kerfi viðbótarlána

Árni Páll Árnason formaður Samfylkingarinnar vill þróa kerfi viðbótarlána til að gera ungu fólki og tekjulágum kleift að kaupa sína fyrstu íbúð.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Árni Páll Árnason formaður Samfylkingarinnar sagði í setningarræðu sinni á Landsfundi Samfylkingarinnar í dag að hann vildi boða róttækar breytingar á húsnæðiskerfinu. Meðal þeirra breytinga sem Árni Páll boðaði var að þróa þyrfti kerfi viðbótarlána til að gera ungu fólki og tekjulágum fjölskyldum kleift að kaupa sína fyrstu íbúð. Þess má geta að viðskiptabankarnir veita í dag allt að því 85% lán til íbúðakaupa.

Því til viðbótar boðaði hann hækkun húsaleigubóta og fjölgun íbúða til leigu til að draga úr háu leiguverði. Árni lagði til að leigutekjur af einni íbúð þyrftu að vera skattfrjálsar fyrir einstaklinga gegn því skilyrði að leiga væri ekki yfir meðalverði.

Samráð á vinnumarkaði

Í ræðunni vék Árni Páll að stöðunni á vinnumarkaði og sagði hann í því samhengi að ríkisstjórnin hafi komið samskiptum við aðila vinnumarkaðarins í uppnám.

„Svar okkar verður að vera að leiða nýtt samtal við aðila vinnumarkaðarins,“ sagði Árni Páll. „Norræna samfélagsmódelið hefur aftur og aftur sýnt að það getur betur glímt við bæði uppsveiflu og samdrátt en önnur kerfi. Til þessa að það virki þarf ábyrga hagstjórn, sem byggir á stöðugleika, góðum aðgangi að erlendum mörkuðum og samræmda launastefnu sem ýtir undir hagvöxt og fulla atvinnu og dregur úr launamun og tryggir að enginn verði skilinn eftir. Það þarf umfangsmikil velferðarkerfi, sem byggja á afkomutryggingu og aðgengi að þjónustu sem tryggir mikla atvinnuþátttöku og hreyfanleika launafólks, ódýra menntun og heilbrigðis- og velferðarþjónustu sem fjármögnuð er með sköttum og tryggir jafnrétti í reynd. Og það þarf vel skipulagðan vinnumarkað, sem byggir á samspili milli lagasetningar og kjarasamninga.“