Brotaforðakerfið er óstöðugt og ýtir undir áhættusækni þar sem seðlabönkum tekst ekki að hemja peningamyndun banka. Færa þarf peningamyndun frá bönkum til Seðlabankans til að draga úr óstöðugleika, minnka skuldir og beina tekjum af peningamyndun í ríkissjóð. Þetta eru niðurstöður nýútkominnar skýrslu um endurbætur á peningakerfinu sem unnin var af Frosta Sigurjónssyni, alþingismanni og formanni efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, að beiðni forsætisráðherra.

Frosti kynnti skýrsluna á blaðamannafundi fyrr í vikunni en í henni er það rakið hvernig íslenskir viðskiptabankar hafa skapað mun meira af peningum en hagkerfið þurfti á að halda. Íslenskt hagkerfi hefur þurft að búa við þráláta verðbólgu, óstöðugan gjaldmiðil og gríðarstórt bankahrun og að mati Frosta er ástæðan fyrir því að miklu leyti sú að bankar hafa ótakmarkaða getu til að búa til peninga með útlánum. Í brotaforðakerfi, sem flestar þjóðir heims búa við, er innlánsstofnunum heimilt að búa til lausar innistæður sem nota má í stað reiðufjár til að greiða skatta og skuldir. Seðlabankinn býr til reiðufé en það er aðeins lítið brot af heildarpeningamagninu. Þegar viðskiptabankana skortir grunnfé vegna mikilla útlána þá á Seðlabankinn varla nokkurra kosta völ aðra en að veita þeim það. Það gerði bankinn á árunum 1994 til 2008 og peningamagn í umferð nítjánfaldaðist.

Millivegur býr til meiri rugling

Spurður að því hvort hann sjái fyrir sér einhvers konar milliveg á milli núverandi peningakerfis og þjóð­ peningakerfisins til að koma til móts við bankakerfið segir Frosti að slíkt sé illmögulegt. „Menn hafa talað um einhverjar millileiðir á milli þessara kerfa en ég tel að það sé ekki gott ef bæði Seðlabankinn og bankarnir búa til peninga. Það er bara enn meiri ruglingur. Ég held að þetta þurfi bara að vera hreint og beint og ég held að það sé ekkert tjón af því, það yrði bara einfalt. Það er líka alltaf hægt að hætta við ef þetta kerfi gengur illa, en það væri t.d. erfiðara ef við tækjum upp annan gjaldmiðil. Kosturinn við þetta kerfi er að þetta er ekki eins glæfraleg leið og margar aðrar,“ segir Frosti.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .