Meðalræðutími þingmanna á fyrstu mánuðum ársins var 7,1 mínúta samanborið við rúmar tíu mínútur árin á undan þegar mest var. Sturla Böðvarsson, forseti þingsins, nefnir þetta sem dæmi um þær breytingar sem orðið hafa á umræðum á Alþingi frá því ný þingskaparlög tóku gildi um áramótin. „Þær breytingar voru mjög mikilvægar og hafa tekist vel að mínu mati,“ segir hann. Ræðutími þingmanna var með breytingunum afmarkaður; til að mynda geta þingmenn ekki talað eins lengi og þeim sýnist við aðra og þriðju umræðu um þingmál.

„Við styttum ræðutímann og afmörkuðum hann, þó þannig að menn geta talað oftar en styttra í einu. Afleiðingarnar eru þær að fleiri þingmenn komast að og meiri líkur eru á málefnalegri umfjöllun. Það hefur líka leitt til þess að það verður umræða en ekki einræða í þingsölum."

Sturla segir að þegar hann hafi tekið við stjórn þingsins hafi hann í ljósi reynslu sinnar haft skýra mynd af því hverju þyrfti að breyta. Víðtæk samstaða hafi náðst um breytingarnar á þingskaparlögunum – ef frá er talin hörð andstaða Vinstri grænna. Þeir mótmæltu einkum takmörkun ræðutímans. Ýmsu öðru var þó breytt, svo sem þingtímanum. Þinginu er með öðrum orðum ekki slitið á vorin, eins og áður, heldur er gert sumarhlé og því síðan fram haldið fyrstu tvær vikurnar í september. Á þetta reyndi í fyrsta skipti nú í haust.

„Hugsunin var í fyrsta lagi sú að hægt væri að fresta afgreiðslu tiltekinna mála á vorin, til að vinna þau betur yfir sumarið, og ljúka þeim í september. Í öðru lagi var hugsunin sú að gefa þingmönnum færi á að ræða hitamál í september áður en nýtt þing hefst 1. október.“ Sturla segir að vel hafi tekist til. „Ef við tökum sjúkratryggingalöggjöfina sem dæmi, en það var umdeilt mál, þá var unnið að því af hálfu heilbrigðisnefndar þingsins og ráðuneytisins að upplýsa það mál betur í sumar. Það var síðan afgreitt í september. Ef slík umdeild mál eru rekin í gegn í hraðferð að vori, geta orðið mistök við lagasetningu. Ég tel því að þetta septemberþing sé mikill öryggisventill. Það skapar betri vinnubrögð. Ég hef því sterka sannfæringu fyrir þessum breytingum.“

______________________________________

Nánar er fjallað um  málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .