*

laugardagur, 11. júlí 2020
Innlent 12. mars 2020 10:45

Vill undanþágu frá flugbanni

Utanríkisráðherra aflýsir 900 manna heræfingu Bandaríkjanna á Íslandi. Landfræðileg sérstaða og aðgerðir rök fyrir undanþágu.

Ritstjórn
Guðlaugur Þór Þórðarson er utanríkisráðherra Íslands.
Haraldur Guðjónsson

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra hefur mótmælt aðgerðum Bandaríkjastjórnar um ferðabann til landsins næstu 30 dagana, og farið fram á að Ísland verði undanþegið reglunum.

Jafnframt hefur ráðherrann tekið þá ákvörðun að aflýsa Norðurvíkingi, umfangsmikilli tvíhliða varnaræfingu Íslands og Bandaríkjanna sem fara átti fram 20. til 26. apríl næstkomandi í ljósi þeirra aðstæðna sem nú eru komnar upp.

Í morgun átti Guðlaugur Þór samtal við sendiherra Bandaríkjanna hér á landi, auk fundar með staðgengli hans, og kom þar á framfæri mótmælum gegn ákvörðun Bandaríkjaforseta sem Viðskiptablaðið greindi ítarlega frá í morgun.

Ráðherra hefur í þessum samtölum við bandarísk stjórnvöld lagt á það ríka áherslu að Ísland verði undanþegið ákvæðunum í ljósi landfræðilegrar sérstöðu sinnar og víðtækra aðgerða sem íslensk stjórnvöld hafa gripið til til að hefta útbreiðslu COVID-19 hér á landi segir á vef ráðuneytisins. Jafnframt hefur ráðherrann óskað eftir fundi í utanríkismálanefnd til að ræða stöðuna.

Fjöldi þátttakenda og ríkja ætluðu að vera með

Varnaræfingin sem nú hefur verið slegin af átti að vera með um 900 þátttakendur frá Bandaríkjunum og fleiri ríkjum en hún er undir stjórn bandarísku flugherstjórnarinnar í Evrópu.

Auk Bandaríkjanna og Íslands hugðu Belgía, Bretland, Danmörk, Holland, Ítalía, Kanada, Noregur, Þýskaland á þátttöku og fulltrúar Ástralíu og Nýja-Sjálands höfðu ætlað að senda fulltrúa hingað til lands til að fylgjast með æfingunni.