Að gista á lúxushótelinu Deplar Farm í Fljótunum á Tröllaskaga er ekki á allra færi. Ódýrustu herbergin kosta í kringum 300 þúsund krónur nóttina samkvæmt bókunarsíðu hótelsins. Hótelinu var lokað tímabundið í haust vegna ástandsins í heiminum.

Deplar eru hluti af ferðaþjónustufyrirtækinu Eleven Experience, sem sinnir lúxusferðamennsku. Bankamaðurinn Chad R. Pike stofnaði fyrirtækið árið 2011. Pike er meðal þeirra 30 erlendra auðmanna sem koma að íslensku atvinnulífi og fjallað er um í nýjasta tölublaði Frjálsrar verslunar. Hugmyndin að Deplum varð til í laxveiðiferð Pike hér á landi.

Pike er mikill áhugamaður um útivist og stofnaði Eleven Experience samhliða störfum sínum fyrir Blackstone Group, stærsta framtaksfjárfestingafélags heims.

Pike lét af störfum í sumar fyrir Blackstone eftir 25 ára starf. Hann er einn af af þeim sem leiddu uppbyggingu Blackstone í Evrópu og tók þátt í fjárfestingaverkefnum fyrir meira en 20 milljarða dollara hjá fyrirtækinu.

Nafnið Eleven Experience er vísun í eftirminnilegt atriði í myndinni Spinal Tap þar sem magnarinn fer upp í ellefu. Pike segir að vörur félagsins eigi að vera í hæsta stigi. Upplifun gesta fyrirtækisins eigi ekki að vera upp á tíu heldur ellefu.

Nánar má lesa um erlenda auðmenn á Íslandi í nýju tímariti Frjálsrar verslunar. Hægt er að kaupa eintak af tímaritinu hér eða gerast áskrifandi hér .