Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur óskað eftir upplýsingum frá iðnaðar- og viðskiptaráðherra um kostnað Landsvirkjunar og umfang vinnu í tengslum við mögulega lagningu sæstrengs.

Ásmundur vill að Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra upplýsi þingið um kostnað Landsvirkjunar við könnun á mögulegri hagkvæmni þess að leggja sæstreng til Bretlands. Þá vill hann vita hversu marga fundi Landsvirkjun hefur átt með fulltrúum breskra stjórnvalda og fyrirtækja frá árinu 2009 og hver ferðakostnaður þessara funda hefur verið. Ásmundur vill jafnframt fá upplýsingar um það hversu margir vinni beint að sæstrengsmálum hjá Landsvirkjun.

Fyrr í dag var samþykkt skýrslubeiðni um ýmsa lykilþætti sem varða mögulega lagningu sæstrengs milli Íslands og Bretlands. Ráðuneyti Ragnheiðar Elínar mun vinna þá skýrslu.