„Launin eru úr takti við íslenskan veruleika,“ segir Steingrímur J. Sigfússon, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, spurður um það hvers vegna ekkert hafi verið gert í launaskriði slitastjórna föllnu bankanna.

Það var Guðlaugur Þ. Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sem vakti máls á launum slitastjórna í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag. Hann benti á að tímakaup slitastjórna hafi hækkað á stuttum tíma úr 16 þúsund krónum í 35 þúsund krónur.

Guðlaugur sagði ólíðandi að slitastjórnir semdu við sjálfa sig um laun. Hann gagnrýndi jafnframt að aðeins hafi verið þrýst á um að launagreiðslur til slitastjórnar Glitnis hafi verið dregnar fram í fjölmiðlum. Sama máli ætti að gegna um aðrar slitastjórnir.

Steingrímur benti á að ríkisstjórnin væri bundin í báða skó. Þótt slitastjórnir hafi verið dómsskipaðar þá starfi þær á kostnað kröfuhafa fallinna fjármálafyrirtækja. Einna helst gæti ríkið krafist upplýsinga um launamálin sem kröfuhafi.