*

laugardagur, 20. júlí 2019
Innlent 17. mars 2018 13:51

Vill útgjaldabremsu í lög

Sjálfstæðisflokkurinn vill selja eignarhluti ríkisins í bönkunum, Leifsstöð og Íslandspósti og leggja niður ÁTVR og RÚV.

Ritstjórn
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins.
Haraldur Guðjónsson

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins samþykktií dag tillögu fjárlaganefndar flokksins. Samkvæmt þeim er meðal annars talið æskilegt að taka upp útgjaldaþak í lög, selja ýmsar eignir ríkissjóðs og innleiða tæknilausnir í opinberum rekstri.

Sjálfstæðisflokkurinn vill binda í lög um opinber fjármál að útgjöld ríkissjóðs vaxi ekki á milli ára umfram meðalhagvöxt undangenginna 10 ára auk 2,5% verðlagsbreytinga (verðbólgumarkmið Seðlabankans).

Flokkurinn vill jafnframt draga verulega úr umsvifum ríkisins, sem séu óásættanleg þrátt fyrir að útgjöld ríkisins hafi vaxið frá síðustu kosningum á vakt Sjálfstæðisflokksins. Samþykkt var að heildarútgjöld samkvæmt ríkisreikningi verði aldrei hærri en fjárlög svo að aukin útgjöld verði ekki samþykkt í fjáraukalögum. Flokkurinn vill halda áfram að lækka skuldir ríkissjóðs og koma þeim undir 15% af landsframleiðslu árið 2025. Þá vill flokkurinn að skuldbindingar ríkissjóðs og ábyrgðir á hverjum tíma komi fram í ríkisreikningi og þær núvirtar. Sömuleiðis eigi þær að koma fram í efnahagsreikningi sem skuldir ríkissjóðs.

Sjálfstæðisflokkurinn telur einnig æskilegt að afnema bindiskylduna á skuldabréfamarkaði, enda meðferð Seðlabankans á haftatækjum ótrúverðug.

Hvað eignir ríkissjóðs varðar telur Sjálfstæðisflokkurinn að selja eigi eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka, Landsbanka, Flugstöð Leifs Eiríkssonar, Íslandspósti og annan samkeppnisrekstur. Þá sé rétt að leggja niður ÁTVR og RÚV í núverandi mynd. Jafnframt telur flokkurinn að ráðast þurfi í úttekt á hagkvæmni húsnæðis ríkisstofnana og að ríkið selji í framhaldinu allar þær fasteignir sem ekki eru nauðsynlegar.

Þá vill Sjálfstæðisflokkurinn innleiða tækni sem sé til þess fallin að lækka kostnað við opinberan rekstur, svo sem með innleiðingu rafrænna lausna, gervigreindar og sjálfvirkni.