Francois Hollande, forseti Frakkklands, hefur bæst í hóp þeirra sem vilja útrýma skattaskjólum í heiminum og hefur hann hvatt stjórnendur franskra banka til að birta upplýsingar um öll dótturfélög þeirra. Hann hefur lagt fram frumvarp á franska þinginu sem á að skikka þingmenn og aðra ríkisstarfsmenn til að upplýsa um eignir og hagsmunatengsl. Hann vonast til að þetta verði til þess að uppræta svik og spillingu.

Verði frumvarpið að lögum munu bankar og fjármálafyrirtæki sömuleiðis þurfa á hverju ári að birta upplýsingar um dótturfélög sín og hvar þau eru skráð. „Bankar munu ekki geta falið fjármagnsflutninga til og frá skattaskjólum,“ sagði Hollande.

Breska ríkisútvarpið (BBC) segir frumvarp Hollande ekki koma af góðu og rifjar upp að Jerome Cahuzac, fyrrverandi fjárlagaráðherra Frakklands, hafi nýverið gerst sekur um skattalagabrot. Hann tók við ráðherraembættinu í maí í fyrra en sagði af sér í mars þegar upp komst að hann ætti leynireikninga í Sviss sem geymi 600 þúsund evrur, jafnvirði rúmra 90 milljóna króna, og komið sér undan skattgreiðslum heima fyrir. Hann hefur verið ákærður fyrir brot á skattalögum í Frakklandi auk þess sem búið er að sparka honum úr Sósíalistaflokki Hollande.