*

fimmtudagur, 22. október 2020
Frjáls verslun 30. mars 2020 07:08

Vill virkja einkaframtakið

Framkvæmdastjóri Lyfju vill bregðast við ósjálfbærum vexti heilbrigðiskostnaðar með því að virkja einkaframtakið.

Júlíus Þór Halldórsson
„Það verður bara að segjast eins og er að ég fæ það ekki á tilfinninguna að núverandi heilbrigðisráðherra hafi vilja til að styðja við einkaframtak í heilbrigðisþjónustu,“ segir Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Lyfju.
Gígja Einars

Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Lyfju, segir mikilvægt að einkaframtakið verði virkjað til að bregðast við ósjálfbærri þróun heilbrigðiskostnaðar hér á landi. Hún óttast hinsvegar að sumir stjórnmálamenn vilji heldur ríkisvæða rekstur lyfjaverslana og apóteka.

Óhætt er að segja að nokkuð óhefðbundið fyrirkomulag ríki með lyfsölu samanborið við aðra söluvöru hér á landi. Verðlagning lyfja fer fram með allt öðrum hætti en verðlagning í annarri smásölu.

Lyfjagreiðslunefnd ákveður heildsöluverð lyfja og horfir í því tilliti til lægsta verðs á Norðurlöndunum. Þar að auki ákveður nefndin hámarksálagningu í smásölu lyfja. „Það er því með meðvituðum hætti verið að stýra lyfjaverði í lágmark.“

Samkvæmt tölum Hagstofunnar hafa útgjöld til heilbrigðismála hátt í fimmfaldast á föstu verðlagi síðastliðin 20 ár, sem gerir um 8% árlegan meðalvöxt. Til samanburðar hefur hagvöxtur verið að meðaltali 3,1%. „Það er ekki sjálfbær þróun. Staðreyndin er hins vegar sú að á meðan allur annar heilbrigðiskostnaður vex með slíkum hætti, er lyfjakostnaður ekki að vaxa.“

Hún segir mikilvægt að leita allra leiða til að bregðast við ört vaxandi útgjöldum til heilbrigðismála. „Ég held að það skipti mjög miklu máli að virkja einkaframtakið til þess. Apótek og lyfjaverslanir eru hluti af heilbrigðisþjónustunni, áskoranir heilbrigðisþjónustunnar eru okkar áskoranir og mikilvægt að við vinnum sem ein heild.“

Lyfjaverð helmingast frá 2002
Sigríður bendir enn fremur á að aðeins rúmir tveir áratugir séu síðan hverfiseinokun í rekstri apóteka var aflétt á Íslandi. „Apótekari var með einkaleyfi til að stunda rekstur í tilteknum hverfum, en svo er ekki lengur. Í sumum þeim löndum sem við berum okkur gjarnan saman við er slík einokun enn við lýði, en þessu var blessunarlega aflétt 1996 hér á landi. Það sem hefur gerst síðan er aukin samkeppni, betri þjónusta og mikil lækkun lyfjaverðs,“ segir Sigríður, en frá 2002 hefur lyfjaverð til neytenda lækkað um helming á föstu verðlagi.

„Aukin samkeppni, framboð samheitalyfja og yfirlýst stefna stjórnvalda um að lágmarka lyfjakostnað hefur haft þessi áhrif,“ segir hún. Þegar horft sé á lyfjaverslun hér á landi heilt á litið sé erfitt að komast að annarri niðurstöðu en að verið sé að gera rétt.

Óttast að sumir vilji ríkisvæða lyfjaverslun
Sigríður segir borðleggjandi tækifæri fólgin í því að horfa til þess með hvaða hætti lyfjaverslanir og lyfjafræðingar geta lagt lóð sín á vogarskálarnar við að bæta heilbrigðisþjónustuna.

Sé rétt haldið á spilunum megi draga úr lyfjasóun, auka meðferðarheldni og létta á heilsugæslunni með tiltekin verkefni. „Til þess þarf hins vegar pólitískan vilja, og það verður bara að segjast eins og er að ég fæ það ekki á tilfinninguna að núverandi heilbrigðisráðherra hafi vilja til að styðja við einkaframtak í heilbrigðisþjónustu,“ segir hún, en það sé illskiljanlegt í ljósi ofangreinds árangurs.

„Ég óttast að sumir stjórnálamenn vilji ríkisvæða þennan rekstur. Stjórnvöld hafa nú þegar vald yfir lyfjaverði og skilgreiningu þeirrar þjónustu sem er greitt fyrir, en í flestum öðrum smásölurekstri eru þessir þættir lykilbreytur rekstrarins. Ég vona svo sannarlega að horft verði á hvaða vörur er verið að selja, með hvaða hætti, það þjónustustig sem við veitum, þá dreifingu sem er í boði um allt land og samanburðurinn við Norðurlöndin. Ég trúi ekki öðru en að með þetta í huga líti yfirvöld og almenningur jákvæðum augum á núverandi rekstrarfyrirkomulag.

Tölurnar og ánægja viðskiptavina tala sínu máli. Hvernig er hægt annað en að vera hlynntur því að þessi grein fái tækifæri til þess að útvíkka þjónustuframboð sitt, í samvinnu við heilbrigðisyfirvöld, til þess að draga úr lyfjasóun, auka meðferðarheldni og hjálpa til við að lengja og bæta líf þjóðarinnar.“

Nánar er rætt við Sigríði í tímariti Frjálsrar verslunar, sem var að koma út og færst í verslun Pennans Eymundsson. Hægt er að gerast áskrifandi hér eða kaupa blaðið hér.